Posted on 27 02, 2012
Laugardagurinn
Allir voru mættir á góðum tíma uppí DansKompaní og eftir að hafa komið dótinu fyrir þá var lagt í hann til Reykjavíkur. Við brunuðum í heimsókn í Þjóðleikhúsið þar sem Stefán Hallur leikari og Ása Andrésdóttir umsjónarmaður í húsinu tóku á móti okkur. Stefán Hallur talaði um hvernig leikrit verða að veruleika og allt það fólk sem þarf til að skapa leikhúsheiminn. Ása fór svo með okkur í rúnt um leikhúsið, baksviðs, undir sviðið, búningageymslu og leikgervadeildina. Þetta var mjög fróðlegt og skemmtilegt og þökkum við kærlega fyrir að fá að koma í heimsókn.
Síðan var haldið á okkar aðaláfangastað, Listdansskóla Íslands. Allir skelltu sér í þrjá danstíma hjá frábærum kennurum en það voru Magnea Ýr Gylfadóttir með Jazz, Arna Sif Gunnarsdóttir með Jazz, Sigrún Birna Blomsterberg með Hip Hop og Leifur Eiríksson með Breik-dans. Við tókum þónokkrar myndir og vídjó sem við munum birta mjög bráðlega.
Um kvöldið var pizzuveisla áður en kvöldvakan hófst. Þurftum reyndar aftur að herja bardaga við brunavarnarkerfið fyrir kvöldvökuna vegna gufunnar sem kom frá sturtunum en það tókst með stórsigri okkar. Á kvöldvökunni voru nokkur atriði frá nemendunum en D3 reið á vaðið með grínatriði að öllum kennurum DansKompaní, sem var alveg brillíant. C1 kom með þungarokks-dansatriði með andlitsmálningu og alles og einnig komu strákarnir með brandara-atriði. Gestaatriði kvöldsins var frá Verzlunarskóla Íslands en þau sýndu okkur tvo flotta dansa úr sýningunni þeirra Bugsy Malone sem sýnd er í Austurbæ. Síðasta skemmtunin á kvöldvökunni var hópakeppni í kókosbollu-súrmjólkur-hraðhlaupskeppni og er skemmst frá því að segja að D2 bar sigur úr býtum – congratz 😉
Seinna um kvöldið var frjáls stund og var vídjó í einum salnum, danspartí í öðrum salnum og frjálst í þriðja salnum.
Sunnudagurinn
Morgunmaturinn var á milli kl.08:30-10:00 og þurftu svo allir að ganga frá svefnstöðum sínum og dóti því kennsla hófst í sölunum kl.11:00. Nemendur fóru í mjög fjölbreytta tíma en það voru Inga Maren Rúnarsdóttir með rep úr dansverki hjá Íslenska dansflokknum, Magnea Ýr Gylfadóttir með Jazz, Ásgeir Helgi Magnússon með acro tíma, Arna Sif Gunnarsdóttir með Jazz, Natasha með breik og Sigrún Birna Blomsterberg með Hip Hop.
Eftir allt púlið var rölt í sund í Laugardalslaugina. Þegar þarna var komið voru allir orðnir mjög forvitnir með hvaða óvænti viðburður væri í vændum. En við sögðum að sjálfsögðu ekki neitt og sóttum Subway handa hópnum áður en við hoppuðum uppí rútuna og inn í óvissuna.
Við þurftum ekki að keyra langt þar sem ferðinni var heitið á Mínus 16, Íslenska dansflokkinn í Borgarleikhúsinu! Það var svo gaman hvað allir voru ánægðir með þessa óvæntu viðbót og heyrðum við eingöngu í mjög jákvæðum röddum bæði fyrir og eftir sýninguna. Þeir sem að fóru í danstímann hjá Ingu Maren sáu þarna dansbrotið sem þau lærðu fyrr um daginn sem var auðvitað mjög skemmtilegt. Það sem kryddaði sýninguna að auki var að bæði Inga Maren og Ásgeir Helgi, sem kenndu fyrr um daginn, voru að dansa í Mínus 16. Það kom upp örlítið fyndin aðstaða þegar við gengum inní stóra sal Borgarleikhússins en margir af krökkunum gleymdu sætanúmerinu sínu og ætluðu að hlaupa inn og ná í fremstu sætin…en við rétt náðum að lagfæra þetta og setja alla í rétt sæti 😉
Eftir viðburðaríka ferð þá var haldið heim á leið og var stoppað í Innri-Njarðvík þar sem um 20 krakkar fóru út en svo var haldið uppí DansKompaní þar sem bílaflotinn beið okkar með flóðlýsingu að sækja sitt fólk.
Takk kærlega fyrir ferðina 🙂
Kveðja, Ásta, Ísabella og Dagmar.